
Samkvæmt GDS sjálfbærnivísinum (e. Global Destination Sustainability Index) lendir höfuðborgarsvæðið í 10. sæti yfir sjálfbærustu áfangastaðina og stekkur upp um heil sjö sæti frá því í fyrra þegar áfangastaðurinn lenti í 17. sæti. Alls tók 81 áfangastaður þátt í GDS sjálfbærnivísinum á árinu 2025.
GDS sjálfbærnivísirinn er alþjóðlegur mælikvarði sem metur frammistöðu áfangastaða þegar kemur að sjálfbærni og hvetur þá áfram í átt að sjálfbærri framtíð. GDS sjálfbærnivísirinn er tengdur Heimsmarkmiðunum og viðmiðum Alþjóðaráðsins um sjálfbæra ferðaþjónustu (GSTC). Jafnframt er Alþjóðlega ferðamálastofnunin (UNWTO) samstarfsaðili verkefnisins.
Það eru Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins og Meet in Reykjavík sem standa í dag að þátttöku höfuðborgarsvæðisins í sjálfbærnivísinum.
Mikilvægur mælikvarði í stefnumörkun höfuðborgarsvæðisins
Árið 2023 var mörkuð stefna fyrir áfangastaðinn af hagaðilum með Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins um að vera leiðandi í sjálfbærni. Skilgreint markmið er að vera á meðal 10 efstu í GDS sjálfbærnivísinum fyrir árið 2027. Því markmiði hefur nú verið náð tveimur árum á undan áætlun og því er ljóst að höfuðborgarsvæðið er fremst í flokki áfangastaða á sviði sjálfbærni.
Samkvæmt Ingu Hlín Pálsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, og Hildi Björgu Bæringsdóttur hjá Meet in Reykjavík þá endurspeglar þessi árangur stöðuga og metnaðarfulla vinnu sveitarfélaga og hagaðila í ferðaþjónustu við að efla sjálfbærni og styrkja höfuðborgarsvæðið sem eftirsóknarverðan og ábyrgan áfangastað. Einnig veitir hún tækifæri til að koma auga á það sem enn má bæta.
5. sæti í flokki meðalstórra borga
Þegar rýnt er frekar í niðurstöður meðalstórra borga er höfuðborgarsvæðið í 5. sæti. Jafnframt fær það hæstu einkunn allra áfangastaða í flokknum samfélag ásamt Helsinki, Gautaborg og Singapore. Þetta endurspeglar hve framarlega höfuðborgarsvæðið stendur varðandi félagsleg gæði, inngildingu og öryggi samfélagsins. Einnig er höfuðborgarsvæðið í fjórða sæti í flokki birgja, sem endurspeglar sterkar sjálfbærnivenjur fyrirtækja í ferðaþjónustu.
Helsinki er nú annað árið í röð í fyrsta sæti GDS sjálfbærnivísisins á undan Gautaborg og Kaupmannahöfn og eru þessar borgir svo sannarlega góðar fyrirmyndir sem veita innblástur og hvatningu.
____________________________________________________________________
Áfangastaðurinn höfuðborgarsvæðið hefur tekið þátt í GDS vísitölunni frá árinu 2016 þegar Meet in Reykjavík hóf þátttöku í verkefninu. Eftir stofnun Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins mynduðu stofan og Meet in Reykjavík samstarf um svörun GDS sjálfbærnivísitölunnar og standa því nú sameiginlega að þátttöku áfangastaðarins í verkefninu.
Frekari upplýsingar um GDS sjálfbærnivísinn er að finna hér.
Nánari upplýsingar um Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins: Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins | Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins
Nánari upplýsingar um Meet in Reykjavík: Meeting, Incentives, conferences and events in Iceland
Nánari upplýsingar veitir Margrét Wendt, verkefnastjóri sjálfbærni og þróunnar hjá Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, margret@reykjavikandpartners.is, s. 771 9937.