Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins var stofnuð 3. apríl 2023 af Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðisins (SSH) og Ferðamálasamtökum höfuðborgarsvæðisins. Samhliða stofnun stofunnar var fyrsta áfangastaðaáætlun höfuðborgarsvæðisins unnin.
Áfangastaðaáætlun er heildstætt ferli þar sem litið er til skipulags og samhæfingar í þróun og stýringu allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á viðkomandi svæði eða áfangastað. Þar er litið yfir allt sviðið og gætt að þörfum gesta, heimamanna, fyrirtækja og umhverfisins.
Um er að ræða sameiginlega stefnuyfirlýsingu sem hefur að markmiði að stýra uppbyggingu og þróun svæðis yfir ákveðinn tíma, skilgreina hlutverk hagsmunaaðila, tiltaka beinar aðgerðir sem hver og einn hagsmunaaðili ber ábyrgð á og hvaða bjargir og auðlindir þeir hyggjast nýta við þá vinnu.
Áfangastaðaáætlun höfuðborgarsvæðisins er gerð að frumkvæði stjórnvalda, en er unnin af Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins í nánu samstarfi við sveitarfélög, aðildarfélög, heimafólk og aðra hagaðila.
Sjálfbærni er meginstoð í allri þróun áfangastaðarins þar sem horft er til þess að ferðaþjónusta hafi jákvæð áhrif á umhverfi, efnahag og samfélag. Áhersla er á samvinnu og samstarf við þróun og markaðssetningu á áfangastaðnum.
Áfangastaðaáætlun er uppfærð árlega með tilliti til framkvæmdaverkefna sveitarfélaga.