Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins ses. var stofnuð þann 3. apríl 2023 stofnuð eftir tveggja ára undirbúning. Markaðsstofan er áfangastaðastofa fyrir höfuðborgarsvæðið allt og eru stofnaðilar Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og Ferðamálasamtök höfuðborgarsvæðisins. Markaðsstofan er sameiginlegur vettvangur sveitarfélaganna Garðabæjar, Hafnafjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar, Reykjavíkur og Seltjarnarness til að markaðssetja og þróa áfangastaðinn höfuðborgarsvæðið. Markmiðið er að ná betri árangri við markaðsvinnu og áframhaldandi þróun áfangarstaðarins.
Samhliða stofnfundi var birt áfangastaðaáætlun höfuðborgarsvæðisins í fyrsta sinn. Hún nær til áranna 2023-2026. Áfangastaðaáætlun er heildstætt ferli þar sem litið er til skipulags og samhæfingar í þróun og stýringu allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á viðkomandi svæði/áfangastað, þ.m.t. þarfir gesta, heimamanna, fyrirtækja og umhverfis.
Áfangastaðaáætlun er sameiginleg stefnuyfirlýsing sem hefur það að markmiði að stýra uppbyggingu og þróun svæðis yfir ákveðinn tíma, skilgreina hlutverk hagsmunaaðila, tiltaka beinar aðgerðir sem hver og einn hagsmunaaðili ber ábyrgð á og hvaða bjargir/auðlindir þeir hyggjast nýta við þá vinnu.