Íbúar höfuðborgarsvæðisins jákvæðir í garð ferðamanna

Image
Kaffihúsastemning

Í nýrri könnun Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins kemur fram að 66% íbúa höfuðborgarsvæðisins líta ferðamenn og ferðaþjónustu jákvæðum augum. Í kringum 80% íbúa telja að ferðaþjónustan hafi haft jákvæð áhrif á framboð á þjónustu á borð við veitingahús og kaffihús. Sami fjöldi telur síðan ferðamenn vinalega og þægilega í samskiptum.

Mikil jákvæðni í garð ferðamanna en minnkar frá síðustu mælingu

Könnunin var gerð af Maskínu í apríl og maí 2024. Frá árinu 2015 hefur Maskína gert sambærilegar kannanir um viðhorf íbúa á höfuðborgarsvæðinu til ferðamanna, fyrst fyrir Höfuðborgarstofu en nú fyrir Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins. Kannanirnar hafa sýnt sveiflur í afstöðu íbúa höfuðborgarsvæðisins til ferðamanna. Á árunum 2017 og 2018, þegar ferðamönnum fjölgaði hratt, minnkaði jafnframt ánægja íbúa gagnvart þeim. Á þeim árum mældist ánægja þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu með ferðamenn svipuð og nú. Ánægja íbúa jókst síðan þegar fjöldi ferðamanna dróst saman á árunum 2019 til 2021 og náði hámarki árið 2022. Þá sögðust 85% íbúa höfuðborgarsvæðisins vera ánægð með fjölda ferðamanna í sinni heimabyggð. Nú, tveimur árum síðar, segjast 66% íbúa jákvæð gagnvart ferðamönnum á höfuðborgarsvæðinu.

Sem fyrr er meirihluti aðspurðra þeirrar skoðunar að ferðamennska hafi góð áhrif á efnahagslega afkomu íbúanna á svæðinu. Heil 73% aðspurðra segja ferðaþjónustuna hafa jákvæð áhrif á efnahaginn, sem er lægri tala en síðustu ár, en nær þeirri sem könnunin frá árinu 2019 leiddi í ljós. Viðhorf íbúa höfuðborgarsvæðisins til áhrifa ferðamanna á þjónustuframboð eru mjög jákvæð og ber þar hæst að 83% telja ferðaþjónustuna hafa jákvæð áhrif á framboð veitingastaða.

Viðhorf breytast með árstíðum

Eins og í fyrri könnunum er nokkur munur á hve jákvæðum augum íbúar höfuðborgarsvæðisins líta fjölda ferðamanna eftir árstíðum. Þannig telja 55% aðspurðra að ferðmenn séu of margir í miðborg Reykjavíkur yfir sumarmánuðina, en á hinn bóginn lækkar sú tala að vetrinum niður í 25%. Alls telja 43% aðspurðra fjölda ferðamanna í miðborg Reykjavíkur hæfilegan á sumrin en yfir vetrarmánuðina segja 62% fjöldann hæfilegan.

Góð sátt um málefni ferðaþjónustunnar

Könnun Maskínu fyrir Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins byggir á svörum íbúa alls svæðisins. Könnunin sýnir að mun fleiri íbúar eru heilt yfir jákvæðir í afstöðu sinni til ferðamanna og ferðaþjónustunnar heldur en neikvæðir. Mest ánægja mælist á Seltjarnarnesi, í Grafarholti og í miðborg Reykjavíkur. Í flestum tilfelldum reyndist munur á meðaltals-jákvæðni/neikvæðni þó innan vikmarka milli svæða. „Hlutverk okkar er að vinna að því hvernig höfuðborgarsvæðið allt getur þróast og mótast heildstætt sem áfangastaður,“ segir Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins. „Mikilvægur þáttur í því er að vinna að góðri sátt um málefni ferðaþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu meðal íbúa, atvinnulífsins og sveitarfélaganna.

Við munum nýta þessi gögn í okkar vinnu og skoða í framhaldinu með sveitarfélögunum hvort og hvernig ræða megi við íbúa um hvað sé hægt að gera betur og hvernig við getum tryggt að gestakomur hingað verði sem ánægjulegastar fyrir alla.“

Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins

Könnun Maskínu er gerð fyrir Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins. Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins (Visit Reykjavík) var stofnuð í apríl 2023 af Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og Ferðamálasamtökum höfuðborgarsvæðisins. Hlutverk hennar er að þróa og markaðssetja höfuðborgarsvæðið í heild. Áhersla er lögð á að efla atvinnustarfsemi og auka gjaldeyristekjur.