Íslandshótel hf. hljóta Höfuðkraft 2025

Mynd
Höfuðkraftur 2025 - Þórdís Lóa, Davíð Torfi og Inga Hlín

Höfuðkraftur eru ný ferðaþjónustuverðlaun fyrir höfuðborgarsvæðið sem voru veitt í fyrsta skipti á Ferðamálaþingi höfuðborgarsvæðisins.

Höfuðkraftur er veittur þeim sem hefur með starfi sínu og stefnu eflt ferðaþjónustuna á höfuðborgarsvæðinu og stuðlað að jákvæðum áhrifum á nærumhverfi sitt og samfélag. Tilgangurinn með verðlaununum er að vekja athygli á mikilvægi ferðaþjónustu sem atvinnugreinar og gildi hennar fyrir jákvæða þróun samfélags og mannlífs á höfuðborgarsvæðinu.

Það skiptir máli að hampa því sem vel er gert og með verðlaununum Höfuðkrafti heiðrar Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins ferðaþjónustuaðila og stofnanir á höfuðborgarsvæðinu fyrir árangursríkt starf. Tilnefnt er til verðlaunanna af hálfu aðildarfélaga Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, fyrirtækja og stofnana sem starfa í ferðaþjónustu. Vinningshafinn fær afhentan Höfuðkraftinn á Ferðamálaþingi höfuðborgarsvæðisins sem haldið er af Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins og var að þessu sinni í Bæjarbíói í Hafnarfirði í dag, 16. september.

Verðlaunin voru nú veitt í fyrsta sinn en verða veitt árlega í framhaldinu.

Verðlaunin Höfuðkraftur 2025 hlýtur fyrirtækið Íslandshótel hf.

Í rökstuðningi segir:  „Íslandshótel hf. er lykilfyrirtæki í ferðaþjónustu höfuðborgarsvæðisins. Innan þess hefur verið lögð rík áhersla á sjálfbæra þróun, fræðslu fyrir starfsfólk og góð tengsl við nærsamfélagið. Fyrirtækið hefur unnið að því að styrkja ferðaþjónustugreinina með stuðningi við önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu og það var fyrsta hótelkeðjan á Íslandi til að hljóta sjálfbærnivottun fyrir öll sín hótel. Íslandshótel hf. hefur sett á oddinn umhverfismál, samfélagsábyrgð, ábyrga stjórnarhætti og hringrásarhagkerfið og hefur fengið fjölda vottana og viðurkenninga fyrir starf sitt. Sem dæmi má nefna að Íslandshótel hf. voru fyrsta íslenska ferðaþjónustufyrirtækið hérlendis til að undirrita svokallaða Glasgow-yfirlýsingu um loftslagsaðgerðir og fyrsta ferðaþjónustufyrirtækið á Íslandi til að hljóta Hinseginvottun Samtakanna 78. Nýlega hlutu Íslandshótel hf. umhverfisverðlaun Terra 2024 fyrir framúrskarandi, markvissan og eftirtektarverðan árangur í úrgangsmálum.“

Það var Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður stjórnar Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins sem veitti verðlaunin en Davíð Torfi Ólafsson, forstjóri, veitti þeim viðtöku. Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins óskar verðlaunahafanum til hamingju með Höfuðkraftinn.