Reykjavík var nýlega valin einn besti áfangastaður í Evrópu til að upplifa jólastemningu og jólamarkaði samkvæmt vefmiðlinum Roadbook. Þetta er ekki í fyrsta skipti í gegnum tíðina sem Reykjavík er valin ákjósanlegur áfangastaður yfir jól og áramót. Það sem hins vegar var eftirtektarvert var að Jólaþorpið í Hafnarfirði var nefnt sérstaklega í greininni sem stað sem fólk má ekki láta fram hjá sér fara á aðventunni.
Því já það er nú svo að við erum að horfa til alls höfuðborgarsvæðisins í heild þegar verið er að tala um jólastemninguna á svæðinu. Erlendir ferðamenn gera ekki greinarmun á því hvort þeir eru í Hafnarfirði eða Reykjavík – þó svo að við íbúarnir gerum það. En það má svo sannarlega segja að allt höfuðborgarsvæðið sé undirlagt af hátíðarupplifun þetta árið.
Það er mikið verk að reyna að komast yfir að skoða alla þá fallegu staði sem hafa verið skreyttir víðsvegar um höfuðborgarsvæðið og upplifa jólaandann. Til þess að nefna nokkur dæmi:
- Miðborgin Reykjavík skartar sínu fegursta með skautasvelli, jólaketti, jólavættum og jólamörkuðum á hverju horni.
- Hellisgerði í Hafnarfirði er skreytt eins og úr ævintýrabók og Jólaþorpið aldrei verið fjölbreyttara.
- Í Guðmundarlundi í Kópavogi er lítið jólaævintýri með fallegum jólaljósum sem gleðja bæði unga sem aldna og þar er búið að vera í boði vinsælt jólaleikrit.
- Alla sunnudaga fyrir jól er aðventuupplestur í Gljúfrasteini í Mosfellsdal og Mosfellsbær er allur fallega skreyttur og þá sérstaklega við Hlégarð þar sem er tilvalið að fá sér góðan göngutúr.
- Garðatorg í Garðabæ býður einnig upp á rólega hátíðarstemningu þar sem m.a. á Hönnunarsafninu er hægt að setjast niður með öðrum og skrifa jólakortin.
- Árbæjarsafn býður upp á sígilda jóladagskrá sem er orðinn ómissandi heimsókn fyrir marga á aðventunni, Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn tekur svo jólaandann upp á næsta stig með jólahringekju og kósýheitum. Þjóðminjasafnið fær svo til sín kræsilega jólasveina á hverjum degi þrettán dögum fyrir jól.
- Jólatónleikar og jólaskop setja svo svip sinn á t.d. Hörpu, Hlégarð, Salinn og Bæjarbíó.
Það er því eins og áður sagði nóg að upplifa þessa aðventuna sem íbúi á höfuðborgarsvæðinu - þó hér hafi aðeins nokkur dæmi verið tekin.
Í miðri aðventu er svo ferðaþjónustan að kappkosta við að taka á móti ferðamönnum og sýna þeim allt það besta sem við höfum upp á að bjóða sem áfangastaður. Því ferðamenn koma hingað í síauknu mæli til þess að upplifa jól og áramót. Þeir vilja kynnast því hvernig við fögnum þessari einstöku hátíð, en á sama tíma getað notið alls þess besta sem við höfum upp á að bjóða í s.s. afþreyingu, veitingastöðum, söfnum. Ekki skemmir ef það glittir í norðurljósin.
Það má kannski segja að það komi ekkert á óvart að höfuðborgin sé valin einn besti áfangastaður til þess að upplifa jólastemninguna – og það viljum við sjá áfram. Það er svo sannarlega ánægjulegt bæði fyrir íbúa og ferðamenn.
Það er von okkar hjá Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins að við öll njótum aðventunnar. Einnig að þeir ferðamenn sem hingað komi muni njóta þeirrar einstöku gestrisni sem við erum þekkt fyrir, eigi hér hæglætis jól og áramót og fari með góða sögu að segja.
Njótið aðventunnar.
Grein á Visir.is 11 desember 2023