Leiðandi í sjálfbærni – Erum við á réttri leið?

Mynd
Sjálfbærni - Margrét

Höfuðborgarsvæðið vill vera leiðandi áfangastaður þegar kemur að sjálfbærri þróun. Þetta markmið er skýrt sett fram í áfangastaðaáætlun höfuðborgarsvæðisins. 

En hvernig vitum við hvenær því er náð? Hvernig er hægt að vita og sýna fram á að höfuðborgarsvæðið sem áfangastaður sé leiðandi í sjálfbærni?  Þessum spurningum leituðust Margrét Wendt, verkefnastjóri hjá Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, og Hildur Björg Bæringsdóttir, viðskiptastjóri hjá Íslandsstofu, að svara í erindi á Degi ábyrgrar ferðaþjónustu 2025.

Þær Margrét og Hildur kynntu þar hinn svokallaða GDS-vísi (Global Destination Sustainability Index). Markmið GDS-vísisins er mæla og bera saman frammistöðu áfangastaða þegar kemur að sjálfbærni og hvetja þá sem vinna að þróun áfangastaða til að setja stefnuna á sjálfbæra framtíð. Þeir sem taka þátt í GDS-vísinum fyrir hönd sinna áfangastaða svara ítarlegum spurningalista og í kjölfarið fær áfangastaðurinn einkunn. Með þessu móti er hægt að bera saman ólíka áfangastaði. GDS-vísirinn gefur þannig góða innsýn í hvar þeir sem vinna að þróun áfangastaðarins standa og hvað þurfi til að ná markmiðum um að vera leiðandi í sjálfbærni. GDS-vísirinn er tengdur heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og viðmiðum Alþjóðaráðsins um sjálfbæra ferðaþjónustu (GSTC). Jafnframt er Alþjóðlega ferðamálastofnunin (UNWTO) samstarfsaðili verkefnisins.

Reykjavík hefur tekið þátt í GDS-vísinum frá árinu 2016 og hefur Meet in Reykjavík verið ábyrgðaraðili verkefnisins, en eftir stofnun Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins hefur hún bæst við sem ábyrgðaraðili.  

Niðurstöður GDS-vísis 2024

Samkvæmt niðurstöðum fyrir árið 2024 fær Reykjavík einkunn upp á 78 af 100 og lendir þar með í 17. sæti á lista GDS yfir sjálfbæra áfangastaði. Í fyrsta sæti var Helsinki með einkunn upp á 90. Helsinki hefur undanfarin fimm ár lagt aukna áherslu á sjálfbærni áfangastaðarins sem hefur skilað sér í þeim árangri að hægt er með sönnu að segja að borgin sé leiðandi áfangastaður í sjálfbærni. 

Niðurstöður af mælingu Reykjavíkur og samanburði borgarinnar við aðrar borgir sem mældar eru á kvarða GDS nýtast sem leiðarvísir inn í framtíðina. Þær segja til um hvað hægt sé að gera til að efla sjálfbærni áfangastaðarins. Til að mynda þyrfti að fara í eftirfarandi aðgerðir:

  • Gerð aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum fyrir ferðaþjónustu
  • Minnka sorp
  • Draga enn frekar úr kolefnisspori í takti við sett markmið.
  • Fleiri fyrirtæki þurfa að setja sér sjálfbærnistefnu og öðlast sjálfbærnivottun
  • Sjálfbærnivottanir fyrir áfangastaðinn og fyrir áfangastaðastofur(nar)

Gott er að fagna þeim árangri sem þegar hefur náðst. Bæði einkunn og sæti Reykjavíkur á GDS-vísinum staðfesta að Reykjavík er á réttri leið. En þó þarf að bæta margt ef hægt á að segja með sönnu að Reykjavík sé leiðandi áfangastaður þegar kemur að sjálfbærni.