Samstarf um áfangastaðinn fest í sessi til næstu ára

Mynd
Undirritun sveitarf og markadsstofa 2025

Sveitarfélögin Garðabær, Hafnarfjarðarbær, Kópavogsbær, Mosfellsbær, Reykjavíkurborg og Seltjarnarnes og Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins skrifuðu undir nýjan þriggja ára samning til áranna 2026-2028 um samstarf um áfangastaðinn höfuðborgarsvæðið á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) sem haldinn var 14. nóvember í Garðabæ.

Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins (Visit Reykjavík) var stofnuð á árinu 2023 og hefur nú fest sig í sessi í samstarfi aðila á höfuðborgarsvæðinu. Stofan er markaðs- og áfangastaðastofa höfuðborgarsvæðisins og er samstarfsvettvangur sveitarfélaganna, stjórnvalda og atvinnugreinarinnar á svæðinu þegar kemur að ferðamálum. Nú eru um 200 samstarfs- og aðildarfélagar að stofunni og sífellt bætast fleiri aðilar í hópinn.  

Markmið áframhaldandi samnings er að þróa og markaðssetja áfangastaðinn sem heild en sérstök áhersla er lögð á að efla atvinnustarfsemi og auka gjaldeyristekjur með sjálfbærni að leiðarljósi. Helstu áherslur samningsins snúa að því að efla vitund og þekkingu um áfangastaðinn, þróa, móta og efla samstarf og samlegð um málefni ferðaþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu milli sveitarfélaga, atvinnulífs, stjórnvalda og stoðkerfisins. Einnig að efla samkeppnishæfni og slagkraft áfangastaðarins í alþjóðlegri samkeppni.  

Áfram er unnið að því að stuðla að sátt íbúa, atvinnulífsins og sveitarfélaga um málefni ferðaþjónustunnar og styrkja stoðir og uppbyggingu hennar ásamt því að vinna að því að auka eftirspurn eftir fjölbreyttri þjónustu og atvinnustarfsemi. Markaðsstofan annast almennt þróunar- og markaðsstarf ásamt því að vera málsvari og samnefnari fyrir ferðaþjónstuna á höfuðborgarsvæðinu.  

„Það er afar ánægjulegt að það sé kominn áframhaldandi samningur um þróun og markaðssetningu á áfangastaðnum höfuðborgarsvæðinu. Samningurinn markar næstu skref um samstarfið og styrkir sameiginlega sýn okkar um að kynna og efla höfuðborgarsvæðið á bæði innlendum og erlendum vettvangi með skýrum markmiðum og sameiginlegum verkefnum,“ segir framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, Inga Hlín Pálsdóttir.

 

____________________________________________________________________ 

Nánari upplýsingar veitir Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins (Visit Reykjavík), inga@reykjavikandpartners.is, s. 824 4375