Höfuðborgarsvæðið er einn áfangastaður
Í byrjun apríl stofnuðu sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og Samtök ferðaþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu nýja markaðs- og áfangastaðastofu höfuðborgarsvæðisins. Þar munu sveitarfélögin og atvinnulífið, sérstaklega ferðaþjónustan, vinna saman að sjálfbærri framtíðarsýn fyrir ferðaþjónustuna og aukinni samkeppnishæfni svæðisins.
Þar hafa öll sveitarfélögin margt fram að færa. Til dæmis eru ekki margir sem gera sér grein fyrir að einn vinsælasti ferðamannastaður landsins er í Garðabæ: Bessastaðir sjálfir.
Ný áfangastaðaáætlun fyrir höfuðborgarsvæðið
Áfangastaðastofur hafa verið stofnaðar í mörgum löndum sem standa frammi fyrir mikilli fjölgun ferðamanna og lengingar ferðamannatímabils. Markmiðið er að þróa ferðaþjónustu í takt við vilja heimamanna og í samráði við hagaðila.
Í skýrslu Alþjóðaferðamálastofnunarinnar (World Tourism Organization) er samkeppnishæfni áfangastaðar skilgreind sem hæfni staðarins til að nota sína náttúrulegu, menningarlegu og manngerðu auðlindir á skilvirkan hátt. Það skili sér í nýstárlegum vörum og þjónustu sem auka virði ferðaþjónustu, bæti og auki fjölbreytni og hámarki aðdráttarafl þess svo það sé ávinningur bæði fyrir gesti og heimamenn út frá sjálfbæru sjónarhorni.
Samræmd vinna sem þessi er til þess fallin að auka tekjur bæði sveitarfélaga og fyrirtækja. Fyrsta áfangastaðaáætlun höfuðborgarsvæðisins hefur nú verið unnin og ég vil sérstaklega fagna þeirri samstöðu og samvinnu sveitarfélaganna og ferðaþjónustunnar.
Áætlun sem þessi er í raun stefnumótun sem allir vinna eftir í uppbyggingu og í svæðisbundinni þróun og markaðssetningu. Öll verkefni í áfangastaðaáætluninni styðja við þróun og samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins alls til framtíðar.
Öflug áfangastaðastofa skilar okkur skemmtilegum tækifærum
En af hverju að stofna markaðs- og áfangastaðastofu? Fyrir utan að verða aftur ein stærsta atvinnugreinin á Íslandi, hefur ferðaþjónusta í Reykjavík gert mikið til að lífga upp á mannlífið í borginni. Með styrkari stoðum ferðaþjónustu er kominn jarðvegur til að stofna enn fleiri fyrirtæki sem leggja áherslu á afþreyingu, menningu, ný veitingahús eða skemmtilegar náttúruferðir á höfuðborgarsvæðinu sem gleðja ekki einungis innlenda og erlenda ferðamenn heldur ekki síður íbúa.
Auk þess að skapa atvinnu verður borgin skemmtilegri fyrir okkur öll. Öflug markaðs- og áfangastaðastofa styður við þá uppbyggingu sem þegar er hafin. Fyrir ekki svo löngu birtist frétt um kattargöngur í Reykjavík, sem er trúlega einsdæmi í heiminum. Þar geta íslenskir eða erlendir hópar gengið um miðborgina, hlustað á sögur um ketti og jafnvel heimsótt frægustu miðborgarkettina. Hugmyndaflugið fær að blómstra því það er líka hægt að fara í álfagöngur, sögugöngur og matargöngur.
Með því að styrkja höfuðborgarsvæðið sem áfangastað er hægt að skapa enn fleiri skemmtileg störf fyrir einyrkja. Eða fara út í enn stærri verkefni, eins og baðstaði í ætt við Sky Lagoon eða stórkostlegar upplifanir eins og Fly Over Iceland og náttúrusýningarnar í Perlunni. Það mætti jafnvel byggja upp hótel og þjónustu í kringum skíðasvæðin, eins og fyrirhugað er við Skálafell, til að styrkja höfuðborgarsvæðið enn frekar sem stórkostlegan vetraráfangastað.
Tækifærin eru endalaus og öflug markaðs- og áfangastaðastofa styrkir enn frekar stoðir fyrir skemmtilega afþreyingu fyrir heimamenn, jafnt sem ferðamenn.