Í nýrri könnun Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins um viðhorf íbúa til ferðamanna og ferðaþjónustu kemur fram að 71% íbúa höfuðborgarsvæðisins eru jákvæðir í garð ferðamanna. Um er að ræða aukningu frá 2024, þegar hlutfall íbúa með jákvætt viðhorf var 66%. Könnunin var gerð af Maskínu fyrir hönd Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins í apríl 2025 og er endurtekning á könnun sem var gerð á sama tíma í fyrra.
Jákvæð áhrif á atvinnulíf og efnahag
Í könnuninni kemur fram að meirihluti íbúa, eða 72%, telur að ferðaþjónusta hafi jákvæð áhrif á atvinnulíf á höfuðborgarsvæðinu. Um 75% eru einnig þeirra skoðunar að ferðaþjónusta hafi jákvæð efnahagsleg áhrif á höfuðborgarsvæðinu. Þegar spurt er um hvað sé jákvæðast við ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu er oftast nefnt að greinin skapi tekjur, en þar á eftir er einnig minnst á styrkingu mannlífs í borginni og eflingu veitingastaða, kaffihúsa og bara. Til að mynda telja 83% íbúa höfuðborgarsvæðisins að ferðaþjónusta hafi jákvæð áhrif á framboð veitingastaða. Þegar spurt er um neikvæð áhrif ferðaþjónustu nefna íbúar höfuðborgarsvæðisins helst fjölda ferðamanna, umferð bílaleigubíla og hópferðabifreiða ásamt áhrifa á leiguhúsnæði. Heilt yfir litið eru þó flest, eða 61%, þeirrar skoðunar að jákvæðar hliðar ferðaþjónustunnar vegi þyngra samanborið við þau 14% sem telja neikvæðar hliðar vega þyngra.
Viðhorf til fjölda ferðamanna breytilegur eftir árstíðum
Eins og fyrri kannanir hafa leitt í ljós er nokkur munur á afstöðu íbúa höfuðborgarsvæðisins til fjölda ferðamanna eftir árstíðum. Þannig telja 53% íbúa að fjöldi ferðamanna í miðborg Reykjavíkur sé mikill eða of mikill yfir sumarmánuðina, en aftur á móti lækkar það hlutfall niður í 22% á veturna. Alls telja 44% aðspurðra fjölda ferðamanna í miðborg Reykjavíkur hæfilegan á sumrin en yfir vetrarmánuðina segja 64% fjöldann hæfilegan. Hvort sem um er að ræða sumar eða vetur er meirihluti íbúa höfuðborgarsvæðisins, eða 82%, þeirra skoðunar að ferðamenn séu vinsamlegir í samskiptum.
Mikilvægt að fylgjast vel með viðhorfi íbúa
„Hlutverk okkar er að stuðla að jákvæðri þróun áfangastaðarins,” segir Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins. „Við viljum að ferðamenn upplifi sig velkomna en líka að ferðaþjónustan hafi jákvæð áhrif á líf íbúa - sem hún svo sannarlega gerir. Við munum áfram fylgjast vel með viðhorfi íbúa og vinna að því að höfuðborgarsvæðið verði áfram vinalegur staður fyrir bæði íbúa og gesti.”
Könnunina um viðhorf íbúa höfuðborgarsvæðisins til ferðamanna og ferðaþjónustu má nálgast hér.