Yfir 90% ferðamanna eru ánægðir með dvöl sína á höfuðborgarsvæðinu 

Mynd
Ferðamenn á Skólavörðustíg - Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins.JPG

Erlendir ferðamenn eru afar ánægðir með dvöl sína á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt könnun Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins eru 94% ferðamanna ánægðir með að hafa heimsótt höfuðborgarsvæðið. Um 60% ferðamanna eru síðan mjög líklegir til að mæla með höfuðborgarsvæðinu sem áfangastað við vini, fjölskyldu eða vinnufélaga.  

Þegar spurt er um hver sé ástæðan fyrir því að þeir mæla með höfuðborgarsvæðinu er oftast nefnt að svæðið sé fallegt, fólkið sjálft og að náttúran og umhverfið séu aðlaðandi. Einnig voru ferðamenn spurðir að því hvern þeir teldu hafa verið hápunkt heimsóknarinnar. Oftast voru nefnd matur og drykkur, Hallgrímskirkja og náttúran. Sú afþreying og þjónusta sem ferðamenn nýta sér helst eru söfn, sýningar, náttúruböð og verslun. 
 

Mynd
Inga Hlín Pálsdóttir

„Það er afar ánægjulegt að sjá að ferðamenn eru ánægðir með dvöl sína á höfuðborgarsvæðinu. Það er sérstaklega gaman að sjá að fólkið er nefnt sem hluti af því sem gerir höfuðborgarsvæðið að góðum áfangastað. Að taka vel á móti gestunum okkar er lykilatriði í að tryggja að þeir upplifi sig velkomna á svæðinu og njóti sín hér. Við megum svo sannarlega vera stolt af gestrisni okkar og öllu því sem höfuðborgarsvæðið hefur fram að færa fyrir ferðamenn hvort sem er afþreyingu, menningu, mat og eða gistingu“

- Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdarstjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins.  

Þessar niðurstöður eiga jafnt við um ferðamenn sem koma að sumri sem að vetri til, en Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins hefur látið framkvæma tvær kannanir meðal erlendra ferðamanna til að meta ánægju þeirra og ferðavenjur. Sú fyrsta var gerð á sumarmánuðum 2024 og sú síðari í febrúar og mars 2025. Báðar kannanirnar voru framkvæmdar af Maskínu fyrir hönd Markaðsstofunnar. 

Athygli vekur að ferðamenn sem heimsækja höfuðborgarsvæðið á veturna sækjast einkum eftir að fara í náttúruböð, eða rétt rúmlega helmingur þeirra. Aftur á móti eru söfn og sýningar vinsælasta afþreyingin yfir sumarmánuðina. Ferðamenn sem koma á veturna dvelja lengur á höfuðborgarsvæðinu en þeir sem koma að sumri til. Meðalfjöldi gistinátta á höfuðborgarsvæðinu á veturna er 5,9 en á sumrin dvelja ferðamenn að meðaltali 4,1 nótt.