Erlendir ferðamenn eru afar ánægðir með dvöl sína á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt könnun Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins eru 94% ferðamanna ánægðir með að hafa heimsótt höfuðborgarsvæðið. Um 60% ferðamanna eru síðan mjög líklegir til að mæla með höfuðborgarsvæðinu sem áfangastað við vini, fjölskyldu eða vinnufélaga.
Þegar spurt er um hver sé ástæðan fyrir því að þeir mæla með höfuðborgarsvæðinu er oftast nefnt að svæðið sé fallegt, fólkið sjálft og að náttúran og umhverfið séu aðlaðandi. Einnig voru ferðamenn spurðir að því hvern þeir teldu hafa verið hápunkt heimsóknarinnar. Oftast voru nefnd matur og drykkur, Hallgrímskirkja og náttúran. Sú afþreying og þjónusta sem ferðamenn nýta sér helst eru söfn, sýningar, náttúruböð og verslun.