Í fyrra haust hóf Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins vinnu við að greina og kortleggja ferðaþjónustukjarna á höfuðborgarsvæðinu. Markmið verkefnisins er að þróa og kortleggja ferðaþjónustukjarna sem munu nýtast í vöruþróun og markaðssetningu á höfuðborgarsvæðinu. Það er grundvöllur fyrir betri upplifun, dreifingu gesta, lengri dvöl og sjálfbærni áfangastaðarins í takt við stefnu áfangastaðarins. Verkefnið er unnið í samstarfi við MH Ráðgjöf.
Í nóvember og desember 2024 voru haldnar vinnustofur með aðildarfélögum Markaðsstofunnar þar sem þátttakendur skilgreindu núverandi og mögulega kjarna á höfuðborgarsvæðinu með því að afmarka svæði og nefna kjarnana. Í framhaldinu voru þátttakendur beðnir um að skilgreina aðdráttarafl og markhópa ferðaþjónustukjarna og tengja þá við stoðir úr stefnumörkun áfangastaðarins. Út úr þessari vinnu komu fjölmargir ferðaþjónustukjarnar ásamt greiningu á aðdráttarafli þeirra og markhópum.
Skýrsla um greiningu og samantekt á ferðaþjónustukjörnum höfuðborgarsvæðisins hefur nú verið birt á heimasíðu Markaðsstofunnar og má lesa hana hér. Næstu skref verkefnisins eru að skipuleggja hagaðilasamtal fyrir hvern ferðaþjónustukjarna. Slíkt hagaðilasamtal hefur nú þegar farið fram fyrir Gömlu höfnina og Grandann ásamt Hafnarfirði. Hagaðilasamtal á hverju svæði skilar enn dýpri greiningu á hverjum ferðaþjónustukjarna og veitir innsýn í tækifæri og áskornir hverju sinni.
Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Margrét Wendt, verkefnastjóri sjálfbærni og þróunar (margret@reykjavikandpartners.is).