Stefna um móttöku skemmtiferðaskipa í Hafnarfirði

Mynd
Hafnarfjörður

Í nýrri stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa í Hafnarfirði er lögð áhersla á sjálfbærni og er horft til þess að komur skemmtiferðaskipa stuðli að auknum lífsgæðum íbúa, hafi jákvæð áhrif á samfélag og umhverfi og tryggi farþegum ánægjulega upplifun. Sett er fram sú framtíðarsýn að taka á móti minni og meðalstórum skipum, stuðla að dreifðum skipakomum og höfða til farþega sem kjósa að dvelja í Hafnarfirði og njóta þess sem bærinn hefur að bjóða.

Stefnuskjalið er gefið út af Hafnarfjarðarhöfn og Hafnarfjarðarbæ í samstarfi við Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins. Hagaðilasamtal var lykilþáttur í vinnslu stefnunnar, en í apríl 2025 var haldin vinnustofa með hagaðilum þar sem leitast var við að fá fram ólík sjónarmið til að kortleggja hvaða þættir skipta mestu máli við mörkun stefnunnar. Einnig var haldinn opinn fundur í júní 2025 þar sem óskað var eftir endurgjöf á vinnuna. Opni fundurinn var sóttur af íbúum og fulltrúum ferðaþjónustu og sveitarfélagsins. 

Helsta forsenda við mótun stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa í Hafnarfirði er ferðamálastefna og aðgerðaáætlun stjórnvalda fram til ársins 2030. Þar kemur fram að Ísland verði leiðandi í sjálfbærri þróun og að ferðaþjónusta sé arðsöm og samkeppnishæf atvinnugrein í sátt við land og þjóð. Ferðamálastefnan inniheldur aðgerð sem varðar samstarf um móttöku skemmtiferðaskipa og nýtingu innviða. Um er að ræða aðgerð C.7 sem tilgreinir að stofnaðir verði samstarfshópar sveitarfélaga og ferðaþjónustu í hverjum landshluta sem vinni greiningu og móti stefnu landshlutans um umgjörð og komur skemmtiferðaskipa og landtöku utan hafna. Er það í takt við þá þróun að hafnir um allan heim setja sér nú stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa til að stuðla að sjálfbærni áfangastaða. Á árinu 2024 stýrði Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins fyrir hönd Reykjavíkurborgar og Faxaflóahafna verkefni um mótun stefnu um þolmörk og móttöku skemmtiferðaskipa í Reykjavík. Á árinu 2025 var síðan ákveðið að framkvæma sambærilegt verkefnið fyrir móttöku skemmtiferðaskipa í Hafnarfirði. 

Stefnan um móttöku skemmtiferðaskipa í Hafnarfirði er sett til ársins 2035 og verður endurskoðuð á þriggja ára fresti. Í framhaldinu verður tekin ákvörðun um gerð aðgerðaráætlunar og unnið að innleiðingu hennar. 

Mynd
Hafnarfjörður

Stefna um móttöku skemmtiferðaskipa í Hafnarfirði

Hér má kynna sér stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa í Hafnarfirði.