Frá árinu 2024 hefur Markaðsstofan tekið þátt í svörun á GDS vísitölunni (e. Global Destination Sustainability Index) fyrir höfuðborgarsvæðið. Markmið GDS vísitölunnar er mæla og bera saman frammistöðu áfangastaða þegar kemur að sjálfbærni og hvetja áfangastaði áfram í átt að sjálfbærri framtíð. Áfangastaðir sem taka þátt í GDS vísitölunni svara ítarlegum spurningalista og fá í kjölfarið einkunn. Þeir geta einnig borið sig saman við aðra áfangastaði. GDS vísitalan gefur góða innsýn í það hvar höfuðborgarsvæðið stendur með tilliti til sjálfbærni og hvað þurfi til að ná markmiði áfangastaðarins um að vera leiðandi í sjálfbærni.
GDS vísitalan er tengd Heimsmarkmiðunum og viðmiðum Alþjóðaráðsins um sjálfbæra ferðaþjónustu (GSTC). Jafnframt er Alþjóðlega ferðamálastofnunin (UNWTO) samstarfsaðili verkefnisins. Spurningunum er skipt í fjóra flokka: Umhverfi, samfélag, birgjar og áfangastaðastjórnun.
Upphaflega var GDS vísitalan þróuð fyrir MICE og viðburðamarkaðinn, en síðan 2020 er horft til ferðaþjónustu í heild sinni. Meet in Reykjavík hóf þátttöku höfuðborgarsvæðisins í GDS vísitölunni árið 2016 og hefur verið ábyrgðaraðili að þátttökunni síðan. Á árinu 2024 bættist Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins við sem ábyrgðaraðili.
Á heimasíðu GDS má sjá niðurstöður höfuðborgarsvæðisins í gegnum árin. Á árinu 2025 fékk höfuðborgarsvæðið einkunn upp á 83,72 og lenti þar með í 10. sæti yfir sjálfbærustu áfangastaði heims samkvæmt GDS vísitölunni.
Árið 2023 var mörkuð stefna fyrir áfangastaðinn af hagaðilum með Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins um að vera leiðandi í sjálfbærni. Skilgreint markmið er að vera á meðal 10 efstu í GDS sjálfbærnivísinum fyrir árið 2027. Því markmiði hefur nú verið náð tveimur árum á undan áætlun og því er ljóst að höfuðborgarsvæðið er fremst í flokki áfangastaða á sviði sjálfbærni. Nánar um niðurstöðurnar fyrir árið 2025 má lesa í frétt hér.