GDS Index
Frá árinu 2024 hefur Markaðsstofan tekið þátt í svörun á GDS vísitölunni (e. Global Destination Sustainability Index) fyrir höfuðborgarsvæðið. Markmið GDS vísitölunnar er mæla og bera saman frammistöðu áfangastaða þegar kemur að sjálfbærni og hvetja áfangastaði áfram í átt að sjálfbærri framtíð. Áfangastaðir sem taka þátt í GDS vísitölunni svara ítarlegum spurningalista og fá í kjölfarið einkunn. Þeir geta einnig borið sig saman við aðra áfangastaði. GDS vísitalan gefur góða innsýn í það hvar höfuðborgarsvæðið stendur með tilliti til sjálfbærni og hvað þurfi til að ná markmiði áfangastaðarins um að vera leiðandi í sjálfbærni.
GDS vísitalan er tengd Heimsmarkmiðunum og viðmiðum Alþjóðaráðsins um sjálfbæra ferðaþjónustu (GSTC). Jafnframt er Alþjóðlega ferðamálastofnunin (UNWTO) samstarfsaðili verkefnisins. Spurningunum er skipt í fjóra flokka: Umhverfi, samfélag, birgjar og áfangastaðastjórnun.
Upphaflega var GDS vísitalan þróað fyrir MICE og viðburðamarkaðinn, en síðan 2020 er horft til ferðaþjónustu í heild sinni. Meet in Reykjavík hóf þátttöku höfuðborgarsvæðisins í GDS vísitölunni árið 2016 og hefur verið ábyrgðaraðili að þátttökunni síðan. Á árinu 2024 bættist Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins við sem ábyrgðaraðili.
Á heimasíðu GDS má sjá niðurstöður höfuðborgarsvæðisins í gegnum árin. Á árinu 2024 fékk höfuðborgarsvæðið einkunn upp á 78,28 og lenti þar með í 17. sæti yfir sjálfbærustu áfangastaði heims samkvæmt GDS vísitölunni.
Loftslagsborgarsamningur
Reykjavíkurborg hefur verið valin til þátttöku í Evrópusamstarfi ásamt ríflega hundrað öðrum borgum um að verða kolefnishlutlaus árið 2030. Hluti af þessu verkefni er að gera loftslagsborgarsamning við hina ýmsu aðila í íslensku samfélagi um það hvernig hægt sé að ná þessu markmiði sameiginlega. Nánar um loftslagsborgarsamning má lesa hér.
Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins hefur undirritað loftslagsborgarsamning við Reykjavíkurborg með það markmið að draga úr losun gróðurhúslofttegunda af völdum ferðaþjónustu. Hlýnun jarðar skapar ýmsar áskoranir fyrir ferðaþjónustu. Þar má t.d. nefna aukna tíðni ofsaveðurs sem ógnar öryggi ferðamanna og bráðnun jökla sem hefur áhrif á ásýnd og aðdráttarafl Íslands. Því er afar mikilvægt að vinna markvisst að því að draga úr losun gróðurhúslofttegunda.