Sjálfbærni og loftslagsmál

Mynd
Höfuðborgarsvæðið náttúra

Sjálfbærni er undirstaða allra verkefna sem Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins vinnur. Í framtíðarsýn höfuðborgarsvæðisins kemur fram að markmið áfangastaðarins sé að vera leiðandi í sjálfbærni. Þar er einnig horft til þess að áfangastaðurinn vilji vera þekktur sem ein heild fyrir fjölbreytta upplifun, staður til að hægja á, samfélag lífsgæða og gestrisni.

Markaðsstofan tekur þátt í GDS vísitölunni sem mælir og ber saman frammistöðu áfangastaða þegar kemur að sjálfbærni og hvetur áfangastaði áfram í átt að sjálfbærri framtíð. GDS vísitalan er mikilvægur mælikvarði til þess að meta hvort áfangastaðurinn sé leiðandi í sjálfbærni, en í áfangastaðaáætlun höfuðborgarsvæðisins kemur fram skilgreint markmið um að vera á meðal 10 efstu í GDS sjálfbærnivísinum fyrir árið 2027. Nánar um GDS vísitöluna má lesa hér.

Loftslagsborgarsamningur

Reykjavíkurborg hefur verið valin til þátttöku í Evrópusamstarfi ásamt ríflega hundrað öðrum borgum um að verða kolefnishlutlaus árið 2030. Hluti af þessu verkefni er að gera loftslagsborgarsamning við hina ýmsu aðila í íslensku samfélagi um það hvernig hægt sé að ná þessu markmiði sameiginlega. Nánar um loftslagsborgarsamning má lesa hér

Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins hefur undirritað loftslagsborgarsamning við Reykjavíkurborg með það markmið að draga úr losun gróðurhúslofttegunda af völdum ferðaþjónustu. Hlýnun jarðar skapar ýmsar áskoranir fyrir ferðaþjónustu. Þar má t.d. nefna aukna tíðni ofsaveðurs sem ógnar öryggi ferðamanna og bráðnun jökla sem hefur áhrif á ásýnd og aðdráttarafl Íslands. Því er afar mikilvægt að vinna markvisst að því að draga úr losun gróðurhúslofttegunda. 

Faghópur sjálfbærni

Samráð er lykilatriði þegar kemur að sjálfbærni og því hefur Markaðsstofan stofnað faghóp sjálfbærni. Markmið faghópsins er að finna leiðir til þess að efla sjálfbærni áfangastaðarins og draga úr losun gróðurhúslofttegunda. Hópurinn ræðir hvað Markaðsstofan getur gert til þess að efla sjálfbærni áfangastaðarins, hvað fyrirtækin geta gert og hvernig fyrirtækin og Markaðsstofan geta stutt við hvort annað. Sérstök áhersla er lögð á að ræða hvernig hvernig áfangastaðurinn getur náð enn betri árangri á GDS vísitölunni, hvaða aðgerðir séu bestar til þess að ná markmiðum loftslagsborgarsamnings og hvernig sé hægt að hvetja önnur fyrirtæki sem eru ekki komin af stað í sjálfbærnivegferð til þess að taka fyrstu skrefin.

Til þess að vera með í faghópnum þurfa fyrirtæki að hafa sett sjálfbærnistefnu og/eða vera með sjálfbærnivottun. Sveitarfélögin geta tilnefnt fulltrúa frá sér til að vera í faghópnum.