Haustið 2024 hóf Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins að vinna verkefni um ferðaþjónustukjarna á höfuðborgarsvæðinu. Markmið verkefnisins er að þróa og kortleggja ferðaþjónustukjarna sem munu nýtast í vöruþróun og markaðssetningu á höfuðborgarsvæðinu. Það er grundvöllur fyrir betri upplifun, dreifingu gesta, lengri dvöl og sjálfbærni áfangastaðarins í takt við stefnu áfangastaðarins.
Ferðaþjónustukjarni er afmarkað svæði sem ferðamenn vilja heimsækja. Hver ferðaþjónustukjarni samanstendur af nokkrum stöðum sem bjóða uppá ólíka upplifun en sem saman mynda eitt svæði með aðdráttarafl fyrir ferðamenn.
Til grundvallar lá greining á seglum höfuðborgarsvæðisins sem gerð var í lok árs 2023. Í framhaldi var ákveðið að fara í greiningu á ferðaþjónustukjörnum og byggir hún á vinnustofum með hagaðilum haustið 2024, þar sem þátttakendur skilgreindu núverandi og mögulega kjarna á höfuðborgarsvæðinu með því að afmarka svæði og nefna kjarnana. Í framhaldinu voru þátttakendur beðnir um að skilgreina aðdráttarafl og markhópa ferðaþjónustukjarna og tengja þá við stoðir úr stefnumörkun áfangastaðarins. Út úr þessari vinnu komu fjölmargir ferðaþjónustukjarnar ásamt greiningu á aðdráttarafli þeirra og markhópum. Nánar um ferðaþjónustukjarnana má lesa í skýrslu um samantekt á ferðaþjónustukjörnunum.