Haustið 2024 hóf Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins að vinna verkefni um ferðaþjónustukjarna á höfuðborgarsvæðinu. Markmið verkefnisins er að þróa og kortleggja ferðaþjónustukjarna sem munu nýtast í vöruþróun og markaðssetningu á höfuðborgarsvæðinu. Það er grundvöllur fyrir betri upplifun, dreifingu gesta, lengri dvöl og sjálfbærni áfangastaðarins í takt við stefnu áfangastaðarins.
Ferðaþjónustukjarni er afmarkað svæði sem ferðamenn vilja heimsækja. Hver ferðaþjónustukjarni samanstendur af nokkrum stöðum sem bjóða uppá ólíka upplifun en sem saman mynda eitt svæði með aðdráttarafl fyrir ferðamenn.
Til grundvallar lá greining á seglum höfuðborgarsvæðisins sem gerð var í lok árs 2023. Í framhaldi var ákveðið að fara í greiningu á ferðaþjónustukjörnum og byggir hún á vinnustofum með hagaðilum haustið 2024, þar sem þátttakendur skilgreindu núverandi og mögulega kjarna á höfuðborgarsvæðinu með því að afmarka svæði og nefna kjarnana. Í framhaldinu voru þátttakendur beðnir um að skilgreina aðdráttarafl og markhópa ferðaþjónustukjarna og tengja þá við stoðir úr stefnumörkun áfangastaðarins. Út úr þessari vinnu komu fjölmargir ferðaþjónustukjarnar ásamt greiningu á aðdráttarafli þeirra og markhópum. Nánar um ferðaþjónustukjarnana má lesa í skýrslu um greiningu og samantekt á ferðaþjónustukjörnunum.
Skýrsla um greiningu og samantekt á ferðaþjónustukjörnum
Í skýrslunni er samantekt á ferðaþjónustukjörnum höfuðborgarsvæðisins, aðdráttarafli, markhópi og aðgengi hvers kjarna.
Hagaðilasamtöl
Næstu skref verkefnisins um ferðaþjónustukjarna eru hagaðilasamtöl í hverjum kjarna. Svæðisbundin hagaðilasamtöl skila enn dýpri greiningu á hverjum ferðaþjónustukjarna og veita innsýn í tækifæri og áskoranir hverju sinni.
Á árinu 2024 fór Markaðsstofan í samstarfi við Mosfellsbæ um hagaðilasamtal þar sem skoðaðir voru möguleikar Álafosskvosar sem áfangastaður fyrir gesti. Markaðsstofan sá um verkstýringu og utanumhald, en skýrslu um verkefnið má kynna sér hér. Aðferðafræðin sem notuð var í verkefninu reyndist vel og því var ákveðið að nýta sömu aðferðafræði í tengslum við hagaðilasamtöl í ferðaþjónustukjörnunum.
Fyrstu ferðaþjónustukjarnarnir þar sem farið var í hagaðilasamtöl voru Hafnarfjörður og Gamla höfnin og Grandinn. Þeim verkefnum er lokið og er hægt að kynna sér niðurstöður verkefnanna hér. Hagaðilasamtöl um Seltjarnarnes og Kópavog fóru fram haustið 2025 og er verið að vinna úr niðurstöðum vinnustofanna. Jafnframt er stefnt að hagaðilasamtölum um Elliðaárdal, Öskjuhlíð og Garðabæ vorið 2026.
Áfangastaðurinn Hafnarfjörður
Markmið verkefnisins var að vinna hugmyndir að því hvernig hægt sé að efla áfangastaðinn Hafnarfjörð með áherslu á móttöku ferðamanna og farþega skemmtiferðaskipa.
Áfangastaðurinn Gamla höfnin og Grandinn
Markmið verkefnisins var að skoða möguleika á að efla Gömlu höfnina og Grandann sem áfangastað fyrir ferðamenn.